Samtök atvinnulífsins (SA) vilja að umhverfisráðherra felli úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar um Suðvesturlínur. Er þar vísað til umfjöllunar Samtakar iðnaðarins sem telja slíka annmarka á úrskurðinum að allar líkur bendi til þess að hann sé ólögmætur.
SA bendir á, líkt og Samtök iðnaðarins, að árið 2006 þegar fjallaði Skipulagsstofnun ítarlega um sameiginlegt umhverfismat vegna framkvæmda í Helguvík hafi niðurstaðan orðið sú að nýta ekki heimild til sameiginlegs mats vegna álversins.
Nú bregði hins vegar svo við í tengslum við línulagnir að Helguvík, að ráðherra leggi lykkju á leið sína til þess að láta enn einu sinni reyna á sameiginlegt umhverfismat.
„Þetta getur ekki gengið svona. Atvinnulífið verður að geta treyst á þær stofnanir sem að lögum fara með tiltekin verkefni. Það verður sömuleiðis að vera hægt að treysta því að þeir ráðherrar sem fara með málefni þeirra og úrskurða jafnvel um ákvarðanir sem þær taka virði lög og reglur, gæti sanngirni og meðalhófs í ákvörðunum sínum og láti alls ekki pólitískar skoðanir og markmið sín glepja sér sýn við meðferð þess valds sem þeim er falið að lögum," er haft eftir Samtökum iðnaðarins.