Óviðunandi er að harðar sé vegið að landsbyggðinni umfram höfuðborgarsvæðið í niðurskurði. Þetta segir bæjarstjórn Grundarfjarðar sem harmar framkomnar hugmyndir stjórnvalda sem hafi neikvæð áhrif á landsbyggðina.
Grundfirðingar segjast skilja að skera þurfi niður og taka undir að allir landsmenn þurfi að taka á sig auknar byrðar vegna ástandsins í samfélaginu. Uppgangur og þensla síðustu ára hafi hins vegar verið nánast að öllu leyti á höfuðborgarsvæðinu og nú þegar kreppi að sé augljóst að þar þurfi að hagræða. Spara megi stofnanir, sameina embætti og draga saman á höfuðborgarsvæðinu.
„Slík aðgerð er vænlegri, vegna stærðar og umfangs stofnananna, til þess að spara umtalsverða fjármuni í rekstri ríkisins. Að leggja niður nokkur tveggja til tíu starfsmanna embætti á landsbyggðinni, þjónar þeim tilgangi einum að gera búsetuskilyrði lakari og draga íbúa til suðvesturhornsins.
Að auki liggur fyrir að viðkomandi starfsemi, sem nú er staðsett víða utan höfuðborgarsvæðisins, mun verða sinnt frá Reykjavík eða frá örfáum stærri byggðakjörnum þannig að vandséð er í hverju sparnaðurinn liggur,“ segir bæjarstjórn Grundarfjarðar.