Ríkisstjórnin samþykkti í gær að heimila Árna Páli Árnasyni félags- og tryggingamálaráðherra að vinna að hugmyndum um byggingu 361 hjúkrunarrýmis fyrir aldraða á árunum 2010 til 2012. Kostnaður yrði um níu milljarðar króna og fjármagn kæmi úr Íbúðalánasjóði. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Framkvæmdirnar yrðu fjármagnaðar úr Íbúðalánasjóði en breyta þarf lögum til að heimila sjóðnum að veita 100 prósenta lán til byggingar hjúkrunarheimila með fjörutíu ára lánstíma og 4,6 prósenta vöxtum. Lögum um Framkvæmdasjóði aldraðra yrði einnig breytt þannig að árin 2012 og 2013 greiði framkvæmdasjóðurinn rekstrar- og leigukostnað þannig að aukinn rekstrarkostnaður falli ekki á ríkissjóð fyrr en 2014.