Tveir litháískir karlmenn, sem sættu gæsluvarðhaldi vegna gruns um að hafa svikið út vörur með fölsuðum greiðslukortum, héldu afbrotum áfram um leið og þeim var sleppt út. Þeir sæta farbanni á meðan mál þeirra fara sína leið í réttarkerfinu.
Mennirnir voru handteknir á Suðurlandi seint í síðasta mánuði. Þá hafði þeim tekist að svíkja út vörur fyrir fleiri hundruð þúsund krónur með klónuðum og fölsuðum greiðslukortum.
Mennirnir voru handteknir eftir skoðun upptaka úr eftirlitsmyndavélum og úrskurðaðir í gæsluvarðhald í vikutíma en ekki þótti ástæða til að halda þeim lengur.
Um var að ræða útlensk kortanúmer sem m.a. voru notuð til kaupa á tóbaki, áfengi og svo innistæðukortum á eldsneyti.
Lögregla höfuðborgarsvæðisins staðfestir að önnur mál eru í rannsókn þar sem þeir koma við sögu og voru framin í byrjun mánaðar.