Fréttaskýring: Fjórir milljarðar kr. í ónýtta fjárfestingu

Ljósleiðarar lagðir
Ljósleiðarar lagðir mbl.is/Ómar Óskarsson

Greint var frá því í vikunni að fyrirtækið Míla ehf., sem rekur fjarskiptanet allra landsmanna, hefði ákveðið að segja upp nítján starfsmönnum. Flestir voru tæknimenn sem unnið hafa við að leggja fjarskiptakerfi í ný hverfi. Lítið er um slíka vinnu um þessar mundir.

Að sögn Páls Á. Jónssonar, framkvæmdastjóra Mílu, hefur fyrirtækið unnið ötullega að því undanfarin ár að leggja í ný hverfi, bæði lagnir fyrir ljósleiðara og koparstrengi. Hann telur að fjárfestingin nemi um tveimur milljörðum króna. „Þetta eru í raun og veru þriggja ára birgðir. Við erum að fjárfesta í þessum kerfum fyrir svona 750 milljónir króna á ári. Það voru auðvitað gífurlegar fjárfestingar í nýjum hverfum á þessum árum.“

Hefði tryggt miklar tekjur

En þessi mikli samdráttur í byggingariðnaði hefur ekki aðeins áhrif á Mílu. Gagnaveita Reykjavíkur rekur gagnaflutningskerfi á svæði sem nú nær frá Bifröst í Borgarfirði, suður og austur um höfuðborgarsvæðið allt út í Vestmannaeyjar. Gagnaveitan hefur einnig lagt mikið af lögnum sem ekki eru komnar í notkun. „Við höfum ekki tekið saman samanburðartölur en ég hef enga ástæðu til að ætla að fjárfesting okkar sé nokkuð minni,“ segir Birgir Rafn Þráinsson, framkvæmdastjóri Gagnaveitunnar.

Birgir tekur hins vegar fram að mikil áhersla hafi verið lögð á það hjá fyrirtækinu að koma ljósleiðurum í gagnið í nýjum hverfum og eru með góða nýtingu. „Ný hverfi Mílu eru tiltölulega fá á meðan við erum í nýjum hverfum sem hafa verið að byggjast upp síðan 2005.“ Birgir tekur fram að hann á þar aðeins við um ljósleiðaralagnir.

Hefði hin hraða uppbygging hverfa sem var á umliðnum árum haldið áfram – en ekki hrunið – fengju fyrirtækin umtalsverðar tekjur af lögnunum. Páll segir þær hlaupa á hundruðum milljóna króna á ársgrundvelli. Birgir Rafn tekur þó annan pól í hæðina og segir ekkert nýtt þó fjárfestingar þurfi að vera í jörðu nokkur ár áður en þær eru að öllu leyti nýttar. „Það er þekkt innan Orkuveitunnar að það tekur oft langan tíma fyrir ný hverfi að byggjast upp og samkvæmt greiningu tekur að meðaltali um átta ár að koma veitum í fulla nýtingu.“

Ekki verður hróflað við lögnunum þó svo þær séu ónýttar að sinni og segir Birgir að þó því verði ekki neitað að hraðari uppbygging hverfa væri óskandi sé um framtíðartekjur að ræða. Páll tekur undir og segist vona að betri tímar komi brátt.

Nýbyggingar á höfuðborgarsvæðinu
Nýbyggingar á höfuðborgarsvæðinu mbl.is/Heddi
Nýbyggingar
Nýbyggingar mbl.is/Golli
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert