Krefjast lausnar á Icesave

Stjórnir Félags íslenskra stórkaupmanna og VR hafa sent frá sér sameiginlega áskorun til Alþingis þar sem krafist er tafarlausar úrlausnar  Icesave málsins.

„Nú er liðið tæpt ár frá því hið svokallaða Iceasave mál kom til kasta stjórnvalda á Íslandi. Málið hefur dregist mjög á langinn og heldur öðrum brýnum úrlausnarefnum í efnhagsmálum í gíslingu ásamt því að ógna stöðugleika á vinnumarkaði.

Augljóst er að vanda þarf til verka við úrlausn Icesave málsins og að ríkir hagsmunir eru í húfi. En umræðan um málið hefur frekar einkennst af hefðbundnum flokkadráttum og persónupólitík í stað þess að raunhæfar efnislegar lausnir séu hafðar í forgangi.

Það verður að gera þá skýru kröfu til þingmanna að umræða sé efnisleg og að allir þingmenn sýni af sér ábyrgð þannig að niðurstaða fáist í málið. Þannig fá stjórnvöld, aðilar á vinnumarkaði, fyrirtæki og almenningur tækifæri til að horfa fram á veginn og vinna að nauðsynlegum umbótaverkefnum og atvinnusköpun.

Á meðan þingheimur hefur teflt þráskák um Icesave síðustu mánuði hafa á tólfta þúsund störf tapast á vinnumarkaði. Einkaneysla hefur dregist saman um fjórðung á aðeins tveimur árum og fjárfesting hefur hrunið um 60%.

Opinberar spár gera ekki ráð fyrir viðsnúningi í neyslu á næstu tveimur árum. Þá hefur tiltrú atvinnurekenda og neytenda á framvinduna í efnahagsmálum aldrei mælst minni. Það hlýtur að vera forgangsverkefni að snúa þessari þróun við.

Stjórnir FÍS og VR skora á Alþingismenn – sama hvar í flokki þeir standa – að sýna ábyrgð og fá niðurstöðu í Icesave málið hið fyrsta. Sú efnahagslega óvissa sem nú ríkir vegna málsins kann að verða okkur dýrkeyptari en lausn þess. Það verður ekki við það unað að íslensk þjóð sitji undir pólitískum skollaleik og að efnahag þjóðarinnar sé haldið í gíslingu af Alþingi meðan atvinnulífinu blæðir með skelfilegum afleiðingum aukins atvinnuleysis."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert