Nokkrir tugir manna söfnuðust saman fyrir utan lögreglustöðina í Reykjavík á ellefta tímanum í kvöld til að mótmæla því að senda eigi flóttamenn fyrirvaralaust úr landi á morgun. Talið er að mennirnir séu fjórir og hefur einn farið í felur af ótta við að verða sendur úr landi.
Að sögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu mættu á milli 30 og 40 manns í mótmælin. Mótmælendur hafi barið dyra á lögreglustöðinni en síðan horfið á braut eftir að lögreglan spurði hvort þeir þyrftu aðstoðar.
Diljá Ásgeirsdóttir, stjúpmóðir stúlku sem er nákomin einum mannanna, segir þá hafa skotið djúpum rótum í íslensku þjóðfélagi. Ákvörðunin sé því röng.
„Þetta er ómannúðlegt vegna þess að þessir menn eru búnir að mynda tengsl, eignast fjölskyldu og vini. Það er skelfilegt til þess að hugsa að þetta mun rústa fjölskyldulífinu,“ segir Diljá, sem bendir á að mennirnir eigi börn hér.
„Það er ekkert sem bíður þeirra í heimalandinu því þar geisar stríð. Þessir menn eru búnir að reyna sitt til að fá hæli hérna en hafa fengið synjun áður. Mér skilst að það svar hafi komið frá dómsmálaráðuneytinu að þar sem mennirnir hafi hvorki myndað tengsl eða fjölskyldubönd hér á landi og séu við góða heilsu sé ekkert því til fyrirstöðu að þeir séu sendir heim.
Einn maðurinn á við andlega erfiðleika að stríða vegna streitu. Þreytan og álagið sem því fylgir að vera sendur heim verður ekki til að bæta líðan hans. Hann var boðaður á íslenskunámskeið sem hann var byrjaður á, en hann kann fjögur tungumál. Ég skil ekki hvers vegna hann var sendur á námskeiðið ef það stóð aldrei til að hann fengi dvalarleyfi.
Það virðist sem að dómsmálaráðherra hafi ekki litið á þau nýju gögn sem henni voru send um málið. Það hefur ítrekað verið brotið á rétti þessara manna.“