Nágrannar Rögnu Árnadóttur dómsmálaráðherra hafa kvartað til lögregðu vegna hávaða frá mótmælendum sem hrópa nú slagorð til stuðnings flóttamönnum sem á að senda af landi brott í fyrramálið. Að sögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fara mótmælin að öðru leyti friðsamlega fram.
Enn sem komið er hefur enginn verið handtekinn en lögreglan segir fólkið öðru hvoru hrópa slagorð.
Eins og greint hefur verið frá á fréttavef Morgunblaðsins snýst reiði fólksins um þá ákvörðun að senda flóttamenn fyrirvaralaust úr landi.
Að sögn Bergljótar Hjartardóttur tengist fólkið sem er fyrir utan heimili ráðherra flóttamönnunum sem á að senda úr landi persónulega.
Réttlætanlegt að mótmæla
Aðspurð um hvort henni þætti eðlilegt að mótmæla fyrir utan heimili ráðherra skömmu fyrir miðnætti kvaðst Bergljót líta svo á að það væri léttvægt miðað við alvöru málsins.
„Þegar þeir verða fluttir úr landi verða þeir líklega sendir í fangelsi í móttökulandinu. Þaðan verða þeir sendir til landsins sem þeir flúðu frá þar sem þeir eru í mikilli hættu. Alvara málsins er svo mikil að friðhelgi ráðherra skiptir engu máli í því samhengi að hér er um líf fólks að ræða.“