Rússar hafna láni til Íslands

Rauða torgið í Moskvu.
Rauða torgið í Moskvu.

Rússar hafa hafnað því að veita Íslendingum gjaldeyrislán. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá rússneska fjármálaráðuneytinu, sem alþjóðlegar fréttastofur vitna til.  Segir í yfirlýsingunni að ákvörðunin sé tekin vegna þess að nauðsynlegt sé að draga úr ríkisútgjöldum í Rússlandi í ljósi þess að mikill halli sé á rekstri ríkisins.

Íslendingar og Rússar hafa átt í viðræðum um hugsanlegt lán allt frá því sl. haust. Síðast áttu þeir Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og Dmitrí Pankin, aðstoðarfjármálaráðherra Rússa, viðræður um málið í Istanbul þar sem ársfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins  var haldinn. Rætt var um að Ísland fengi allt að 500 milljónir dala að láni.  

Reutersfréttastofan hefur eftir ónafngreindum íslenskum embættismönnum, að þar sem viðræðurnar hefðu dregist svona á langinn hefði í raun verið lítil von um að Rússar myndu veita nein lán.  Lán frá Rússum skipti heldur ekki sköpum við endurreisn íslenska efnahagslífsins þar sem samkomulag hafi verið gert við Alþjóðafjármálasjóðinn um lánafyrirgreiðslu. 

Rússar hafa einnig hafnað því að lána Úkraínu 5 milljarða dali og 500 milljónir dala til Hvíta-Rússlands. Hins vegar hafa rússnesk stjórnvöld samþykkt að veita Serbum lán og hugsanlega einnig Búlgurum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert