Þingmenn bæði Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks fullyrtu á Alþingi í dag, að staða Íslands muni styrkjast 23. október næstkomandi þegar greiðsluskylda Tryggingarsjóðs innistæðueigenda vegna Icesave-skuldbindinganna, verður virk.
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokks, sagði að framsóknarmenn hefðu staðið í ströngu við að leiðrétta ýmislegt sem kastað hefði verið fram um Icesave-málið. M.a. hefði komið fram í fjölmiðlum að eitthvað hræðilegt muni gerast 23. október og það sé dagurinn þar sem íslenska ríkið verði hugsanlega gjaldþrota.
Sannleikurinn sé hins vegar sá, að 23. október hefjist greiðsluskylda innistæðutryggingasjóðsins. „Og þann dag gæti einmitt staða Íslendinga gagnvart Hollendingum og Bretum batnað til mikilla muna vegna þess að þá er það undir þeim komið að sækja mál á hendur innistæðutryggingasjóðnum til að fá úr því skorið hvaða upphæð mönnum ber að greiða. Það er einmitt staðan sem við Íslendingar þurfum að komast í," sagði Höskuldur.
Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði að 23. október gætu einkaaðilar í Hollandi, sem ekki fengu innistæður sínar á Icesave-reikningum bættar, kynnu að gera kröfur á innlánstryggingasjóðinn þann dag og krefjast auk þess íslenskrar ríkisábyrgðar líkt og breska og hollenska ríkið hafa fengið.
„Þann dag gæti komið í ljós, að Héraðsdómur Reykjavíkur þurfi að úrskurða hvort það sé ríkisábyrgð á þessu. Og þann dag taka Bretar og Hollendingar og allt bankakerfið í Evrópu þá áhættu að það sé ekki ríkisábyrgð á þessu," sagði Pétur. Kæmi í ljós að dómstólar segi að ekki sé ríkisábyrgð á innlánstryggingunum þá sé allt evrópska bankakerfið í hættu. „Því segi ég: Það sem getur gerst 23. október er slæmt fyrir Breta og Hollendinga og Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Japana og alla. En við öðlumst mjög sterka stöðu 23. október."
Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að á fundum fjárlaganefndar í sumar hefði margoft komið fram hvað gæti gerst 23. október og hvað gæti gerst ef Íslendingar stæðu ekki í skilum með Icesave-skuldbindingarnar. M.a. myndu lánafyrirgreiðslur ganga hægar fyrir sig, leið Íslendinga út úr vandanum yrði erfiðari.
„Það er skylda að halda því til haga, að það er krafa um að íslenska ríkið borgi til jafns til allra þeirra, sem áttu innistæður í íslenskum bönkum burtséð frá því hvaða landi þeir koma frá. Það þýðir að í staðinn fyrir að við borgum 20.880 evrur til hvers (Icesave-reikningseiganda) þá þurfum við að borga allt sem þegar er búið að borga til Breta og Hollendinga. Sú krafa hlýtur að koma upp ef farið verður í dómsmál," sagði Guðbjartur.