Þingmenn Sjálfstæðisflokks hafa lagt fram tillögur á Alþingi sem miða að því, að bæta stöðu heimila og fyrirtækja, endurheimta tiltrú á íslenskt efnahagslíf, tryggja hvata til atvinnusköpunar og hagvaxtar og skapa skilyrði til þess að Íslendingar verði að nýju í hópi samkeppnishæfustu þjóða heims.
Segja sjálfstæðismenn að bætt afkoma ríkissjóðs ef farið verður að tillögum þeirra, sé um 85–90 milljarðar króna á næsta ári án þess að hækka þurfi skatta. Auk þessa gæti náðst fram á bilinu 27–33 milljarða kr. sparnaður vegna minni vaxtakostnaðar í kjölfar endurskipulagningar gjaldeyrisvarasjóðs og lækkunar vaxta.
Sjálfstæðismenn leggja m.a. til að sameiginleg áætlun íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins verði endurskoðuð í ljósi breyttra aðstæðna. Gjaldeyrishöft verði afnumin og krónunni leyft að fljóta og sköpuð skilyrði fyrir því að vextir Seðlabanka Íslands lækki umtalsvert. Þá verði lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sett í bið en lánum Norðurlandanna breytt í lánalínur.
Meðal annars segir í greinargerð með tillögunni, að umfang hins opinbera hafi aukist mjög undanfarinn áratug og sé nú orðið of mikið. Svigrúm sé til að lækka útgjöldin umtalsvert, t.a.m. niður á sama stig og var á fyrri hluta áratugarins. Það verði hins vegar að gera á vel ígrundaðan hátt og á lengri tíma en nú sé áætlað.
Þingsályktunartillaga sjálfstæðismanna