Bifreið valt í Svínahrauni, rétt austan við Litlu-Kaffistofuna, um kl. átta í morgun. Þrír voru í bifreiðinni og að sögn lögreglunnar á Selfossi voru allir fluttir á slysadeild. Beita varð klippum til að ná ökumanninum út úr bílnum.
Hann er sagður hafa hlotið mesta áverka, en hann var með meðvitund allan tímann. Talið er að áverkar farþeganna hafi verið minni.
Slagveðursrigning var á svæðinu í morgun og skyggni lélegt. Að sögn lögreglu missti ökumaðurinn stjórn á bifreiðinni og leikur grunur á að bifreiðin hafi farið að fljóta í bleytunni.