„Við þurfum að létta byrðum af fyrirtækjunum og laða erlent fjármagn hingað heim. Ef slíkt gerist, geta fyrirtækin aftur farið að ráða til sín fólk og þannig má eyða atvinnuleysi. Við sjálfstæðismenn höfum bent á, að 5.000 ný störf sem skapa mætti strax á næsta ári myndu bæta afkomu ríkissjóðs,“ segir Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins í samtali við Morgunblaðið.
Lífeyrissköttum verði breytt
Sjálfstæðisflokkurinn lagði í gær fram þingsályktunartillögu á Alþingi um bráðaaðgerðir í efnahagsmálum. Lagt er til að ríkið spari um 5% í velferðar- og menntamálum og um 10% á öðrum sviðum. Þetta telja Sjálfstæðismenn að geti sparað 35 til 40 milljarða á ári, viðlíka og kerfisbreyting á skattlagningu lífeyrisgreiðslna. Þá er lagt til að umhverfi atvinnurekstrar verði bætt og hindrunum fyrir erlenda fjárfestingu rutt úr vegi sem geti skapað 5.000 ný störf árlega.Í gjaldeyrismálum er lagt til að ríkið gefi út skuldabréf til lengri tíma sem séu aðlaðandi fyrir erlenda fjárfesta. „Erlend fjárfesting styrkir gjaldmiðilinn og styrkir krónuna,“ segir í tillögunum. Er undirstrikað að sterkari króna lækki upphæðina sem íslenska ríkið þarf að borga í krónum en þær fái ríkið á móti skuldabréfunum og geti notað til að fjármagna framkvæmdir og halla ríkissjóðs.
Bjarni Benediktsson segir aðspurður að vissulega sé ekki mikill munur á lánum eða skuldabréfaútgáfu. Með síðarnefndu leiðinni sé hins vegar gerlegt að dreifa byrði á lengi tíma, skapa trúverðuga áætlun og ryðja úr vegi hindrunum.
„Forsendan fyrir breiðri sátt í samfélaginu er að treysta að nýju stöðu heimilanna,“ segja sjálfstæðismenn. Þeir vilja að taka á skuldavanda heimilanna með þeim útgangspunkti að fjölskyldur búi í eigin húsnæði og aðgerðir tryggir hag bæði lántakenda og -veitenda.
Gripið verði til almennra aðgerða, stimpilgjöld afnumin og tekið verði á vanda verst stöddu heimilanna og þeim sem orðið hafa gjaldþrota verði gert auðveldara að komast á fæturna að nýju.
Í atvinnumálum er undirstrikað að ekki megi ganga svo í umhverfisverndar, orkunýtingu eða útgerð, að skynsamleg atvinnutækifæri séu slegin út af borðinu. Þá er segir að umræða um fyrningarleið hafi valdið óvissu og ólympískar strandveiðar séu óhagkvæmar. „Það er hættulegt að hækka skatta á sama tíma og við erum í niðurskurði. Því bendum við á aðrar leiðir til að loka fjárlagagatinu,“ segir Bjarni Benediktsson.