Berjast til að ná Icesave-sátt

Steingrímur J. Sigfússon, formaður fjármálaráðherra, kappkostar að ljúka Icesave-málinu.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður fjármálaráðherra, kappkostar að ljúka Icesave-málinu. mbl.is/Ómar

„Þetta hefur snúist um fleira en efnahagslegu fyrirvarana,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, um viðræður við Breta og Hollendinga um fyrirvara Alþingis við Icesave-samkomulagið. Hann segir að samt að enn sé deilt um hvernig gengið verði frá nýrri greiðsluáætlun sem samrýmist efnahagslegum fyrirvörum þingsins.  

Bretar og Hollendingar vilja tryggingu fyrir því að það sem eftir kunni að standa af Icesave-láninu árið 2024, þegar ríkisábyrgðin fellur niður, verði greitt. Hefur þetta verið eitt stærsta þrætueplið í viðræðum ríkjanna og kom jafnframt skýrt fram á fundi Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra, með David Miliband, utanríkisráðherra Bretlands, og Maxime Verhagen, utanríkisráðherra Hollands, í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York hinn 25. september.

Engin lausn komin í málinu

 „Það eru þarna ákveðin stór lagaleg atriði sem hafa verið erfið. Við erum ekki tilbúin að fallast á niðurstöðu fyrr en við teljum að hún sé í ásættanlegum búningi,“ segir Steingrímur.

Aðspurður hvort komin sé lausn á málinu eða málamiðlun sem rúmast innan fyrirvara löggjafans við samningnum segir Steingrímur að það sé stóra atriðið. Að lokafrágangurinn sé eins samrýmanlegur fyrirvörum Alþingis og kostur er. „Það er það sem við höfum verið að berjast fyrir að verði í lagi,“ segir Steingrímur.

Fyrirvarar til þess að samningur verði þjóðinni ekki of þungbær

Fyrirvarar Alþingis eru til þess fallnir að greiðslubyrðin vegna Icesave-reikninganna verði Íslendingum ekki of þungbær. „Ef Bretar og Hollendingar fallast á fyrirvara Alþingis þarf augljóslega að búa öðruvísi um málið en áður var ráð fyrir gert. Því efnahagslegu fyrirvararnir hafa áhrif á endurgreiðsluferilinn á láninu,“ segir Steingrímur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka