Brottvísun hælisleitenda ekki geðþóttaákvörðun

Ragna Árnadóttir.
Ragna Árnadóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra, sagði á Alþingi í dag að ákvörðun um málefni hælisleitenda hér á landi byggðist á lögum og reglum og almennum mælikvörðum en væri ekki geðþóttaákvörðun ráðherra.

Ragna var að svara fyrirspurn frá Önnu Pálu Sverrisdóttur, varaþingmanni Samfylkingarinnar, sem spurði um málefni þriggja hælisleitenda, tveggja frá Írak og eins frá Afganistans, sem nú ætti að endursenda til Grikklands.

Hópur fólks mótmælti þessari ákvörðun í gærkvöldi, fyrst utan við lögreglustöðina við Hlemm og síðan utan við heimili Rögnu. Anna Pála tók fram að slíkt brot gegn friðhelgi einkalífs ráðherrans væri óviðunandi.

Anna Pála spurðu hvort ráðherrann teldi réttlætanlegt að senda mennina til Grikklands og hvort álits Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna hefði verið leitað varðandi þessa þrjá menn.  Sagði Anna Pála að flóttamannastofnunin væri almenn andvíg því að senda flóttamenn til Grikklands.

Anna Pála sagði, að einn þessara flóttamanna væri 19 ára og annar hefði þurft að vera undir læknishendi vegna þess álags, sem fylgt hefði hans ástæðum. Fyrir lægi, að mennirnir þrír hefðu verið handteknir í gær án þess að fá tækifæri til að kveðja vini sína.

Ragna sagðist ekki tjá sig um mál einstakra hælisleitenda en sagðist hafa fullvissað sig um að farið hefði verið að lögum og reglum varðandi mál þessara manna. En hvort sem mönnum líkaði betur eða verr þá væru Íslendingar aðilar að svonefndu Dyflinarsamkomulagi og samkvæmt því fer hælismeðferð fram í ríki sem hælisleitendur eru sendir til. Þeir sem sendir væru héðan til Grikklands fengju meðferð mála sinna þar.

Ragna sagði rétt, að Flóttamannastofnun SÞ hefði tekið afstöðu gegn því að hælisleitendur séu sendir til Grikklands. Hins vegar hefði ekkert Dyflingarríki ákveðið að endursenda ekki hælisleitendur til Grikklands.   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert