Byrjað að bólusetja

Starfsmenn lyfjafyrirtækisins GlaxoSmithKlein á Íslandi tóku á móti fyrstu sendingunni …
Starfsmenn lyfjafyrirtækisins GlaxoSmithKlein á Íslandi tóku á móti fyrstu sendingunni af bóluefni við Svínaflensu í morgun.

Byrjað var að bólusetja heilbrigðisstarfsmenn á Landspítala gegn svínaflensu klukkan 16 í dag en fyrsta sendingin af bóluefninu kom til landsins með flutningaflugvél í morgun. Þá er byrjað að dreifa bóluefninu til sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva svo hægt verði að bólusetja starfsfólk þar.

Þetta kom fram á blaðamannafundi, sem embætti sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra héldu síðdegis. Haraldur Briem, sóttvarnalæknir, sagði að þegar búið yrði að bólusetja heilbrigðisstarfsmenn yrði næsti hópur bólusettur, það er þeir sem sjá um ýmsa öryggisþætti, svo sem lögreglumenn, slökkviliðsmenn og aðrir sem gegna lykilstörfum í samfélaginu.

Vonast er til að í byrjun nóvember verði hægt að byrja að bólusetja þá sem hafa undirliggjandi sjúkdóma. Áætlað er að í þessum þremur hópur séu um 75 þúsund manns. 

Almenn bólusetning gæti hafist í lok nóvember eftir því hve hratt bóluefnið berst hingað til lands. Haraldur sagði aðspurður, að ekki væri gert ráð fyrir því að þeir sem eru í forgangshópum greiði fyrir bólusetninguna nema ef vera skyldi komugjöld á heilsugæslustöðvar.

Breiðist hratt út

Fram kom hjá Haraldi að svínaflensufaraldurinn breiðist nú hratt út á landinu. Fjórir liggja nú á gjörgæsludeild Landspítala þungt haldnir vegna svínaflensunnar. Þar á meðal er einn ferðalangur, sem var á leið frá Rússlandi til Bandaríkjanna en veiktist á leiðinni og var lent með hann hér. Haraldur sagði, að maðurinn væri með undirliggjandi sjúkdóma og alvarlega veikur. 

Haraldur sagði, að bæði vinnuveitendur og skólar hefðu að undanförnu óskað eftir vottorðum lækna vegna veikindafjarvista starfsmanna og nemenda. Sagði Haraldur að nóg væri að gera hjá læknum þessa stundina og hvatti hann því þessa aðila til að taka sjúklingana trúanlega og krefjast ekki vottorða.

Haraldur Briem og Rögnvaldur Ólafsson, fulltrúi almannavarnadeildar á blaðamannafundinum í …
Haraldur Briem og Rögnvaldur Ólafsson, fulltrúi almannavarnadeildar á blaðamannafundinum í dag. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka