Hæstiréttur hefur hafnað bótakröfu manns, sem var sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að hafa ekið bíl undir áhrifum áfengis en sýknaður af brotinu í Hæstarétti.
Héraðsdómur svipti manninn ökuréttindum í 12 mánuði og dæmdi hann til að greiða sekt. Eftir að Hæstiréttur sýknaði manninn krafðist hann bóta fyrir að hafa verið saklaus sviptur ökuréttindum um skeið.
Maðurinn lagði til grundvallar bótakröfunni, að hann hefði saklaus hlotið refsidóm í héraði, en Hæstiréttur taldi, að réttur til skaðabóta væri háður því að maður hefði þolað refsingu eða upptöku eigna. Til refsinga í skilningi þessa lagaákvæði gæti aðeins talist fangelsisvist eða fésekt. Þar sem maðurinn hafði ekki greitt sektina, sem héraðsdómur dæmdi hann til að greiða, taldi Hæstiréttur að hann ætti ekki rétt á bótum.
Dómarnir í héraði og í Hæstarétti féllu árið 2007. Á síðasta ári voru sett ný lög um meðferð sakamála sem leystu af hólmi eldri lög. Samkvæmt nýju lögunum fær maður rétt til skaðabóta hafi hann saklaus hlotið dóm í sakamáli, þolað refsingu eða refsikennd viðurlög.