Langflestir þeirra sem fá geðlyf eru í aldurshópnum 65-69 ára, að því er segir í skýrslu landlæknisembættisins um lyfjanotkun Íslendinga á síðasta ári. Nota Íslendingar mun meira af geðlyfjum heldur en Danir og gildir það um alla aldurshópa.
Heildarfjöldi ávísana á Íslandi árið 2008 breyttist lítið frá árinu 2007. Aðeins einn lyfjaflokkur (meltingar- og efnaskiptalyf) minnkar milli ára, en talsverð aukning átti sér stað í flokki blóðlyfja, bæði hvað varðar fjölda ávísana (35,3%) og fjölda notenda (19,3%). Í flestum flokkum, bæði í fjölda ávísana og fjölda notenda, er um aukningu að ræða en fólksfjölgun var um 2,56% milli ára, sem skýrir a.m.k. hluta þessarar aukningar. Breytingar á aldurssamsetningu þjóðarinnar gætu einnig skipt máli þar sem lyfjaávísunum fjölgar með hækkandi aldri.
„Hafa ber í huga að í aldursskiptum tölum virðist fjöldi ávísana á íbúa dragast saman í elstu aldurshópum en ekki aukast eins og gera má ráð fyrir. Ástæða þess er sú að lyfjanotkun þeirra sem fara inn á dvalarheimili eða hjúkrunarrými aldraðra kemur ekki fram í lyfjagagnagrunni yfir ávísuð lyf," að því er segir í skýrslunni.
Miklu meira selt af húðlyfjum hér en annars staðar
Flestir þeirra sem fá ávísað lyfjum fá lyf í flokki sýkingalyfja en mestur fjöldi dagskammta er í flokki hjarta- og æðasjúkdómalyfja og geðlyfja. Í samanburði milli Íslands, Noregs og Danmerkur kemur í ljós að Ísland er hæst í sölu húðlyfja, þvagfæralyfja, kvensjúkdómalyfja og kynhormóna, sýkingalyfja, vöðvasjúkdómalyfja og tauga- og geðlyfja. Munurinn er mestur í flokki húðlyfja, en hér á landi er sala húðlyfja meira en tvöfalt það sem er í Danmörku og margfalt það sem er í Noregi. Þetta gæti þó stafað að hluta til af óskilgreindum dagskömmum fyrir húðlyf í Danmörku eða Noregi þar sem í flokknum eru lyf sem eru ekki í töfluformi heldur krem sem erfitt er að finna dagskammta fyrir.Í Danmörku eru ávísuð lyf mjög hátt hlutfall af heildinni (sölu).
Hlutfall ávísaðra lyfja er eingöngu hærra á Íslandi en í Danmörku í flokki æxlishemjandi- og ónæmistemprandi lyfja, sem bendir til þess að notkun þessara lyfja sé stýrt frá sjúkrahúsum hjá Dönum.