Slökkviliðsmenn í Vestmannaeyjum hafa nú náð tökum á eldinum í Lifrarsamlaginu við Strandveg. Stefán Örn Jónsson, aðstoðar slökkviliðsstjóri, sagði að fjarlægja þurfi járnplötur úr hrundu þakinu til að komast að timbri þar undir.
„Við höfum komist í veg fyrir allan eld,“ sagði Stefán. „Svo er að rífa þessar járnplötur af og að slökkva í glóð þar undir.“ Kranabílar verða notaðir við að rífa járnplöturnar og fjarlægja.
Allir tankar Lifrarsamlagsins voru fullir af lýsi. „Það lak eitthvað lýsi á gólfið og logaði í því en við vorum snöggir að slökkva í því. Við erum fyrst nú að komast inn til að skoða þetta. Við höfum ekki enn séð stórvægilegt tjón á tönkum,“ sagði Stefán.
Stefán sagði að slökkviliðið hafi fengið aðstoð frá björgunarsveitinni á staðnum og einnig kom slökkvibíll frá Flugstoðum. Þá var dráttarbáturinn Lóðsinn til taks ef dæla hefði þurft meira vatni á brunastaðinn.
Tryggvi Ólafsson lögreglufulltrúi sagði að talsvert rok sé í Eyjum og eru járnplötur að losna og fjúka úr brunarústunum. Vindurinn blæs í glóðirnar og blossaði þar upp öðru hvoru. Tök náðust á eldinum á áttunda tímanum í morgun en tilkynnt var um eldinn um klukkan fjögur í nótt. Þakið á elsta húsi Lifrarsamlagsins hrundi fljótlega og líklega þarf að rífa þakið af yngra húsinu.
Rannsókn á eldsupptökum hefst væntanlega síðar í dag. Tryggvi taldi víst að aðstoð verði fengin frá tæknideild Lögreglu höfuðborgarsvæðisins en hún aðstoðar öll lögreglulið á landinu við brunarannsóknir.