Samtök hollenskra innistæðueigenda Icesave-reikninga Landsbankans í Hollandi, er nefna sig Icesaving, hafa sent kæru til Eftirlitsstofnunar EFTA í Brussel, ESA. Beinist kæran gegn Fjármálaeftirlitinu (FME) vegna stofnunar Nýja Landsbankans á grundvelli neyðarlaganna.
Með því að skilja erlendar eignir eftir í gamla Landsbankanum en setja allar aðrar eignir í þann nýja hafi kröfuhöfum verið mismunað. Nema kröfur Hollendinga 25,5 milljónum evra, eða um 4,7 milljörðum króna.
ESA hefur staðfest móttöku kærunnar og látið íslensk stjórnvöld vita. Að kærunni standa alls um 220 innistæðueigendur í Hollandi. Telja samtök þeirra einnig að kröfuhöfum hafi verið mismunað á grundvelli þjóðernis og brot framin á alþjóðlegum neytendarétti.
Samtökin hafa sent þingmönnum hér á landi, í Hollandi og Bretlandi afrit af kærunni til ESA. Í bréfi sem fylgir kærunni kemur fram hjá formanni Icesaving, Joost de Groot, að frá því í vor hafi engin svör fengist frá íslenskum stjórnvöldum við kröfum Hollendinga. Litið sé á að stjórnvöld hafi því engan áhuga á lausn málsins.