Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði í utandagskrárumræðu á Alþingi í morgun, að það væri ekki raunhæft að fá lán frá Norðmönnum óháð áætlun Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Höskuldur Þór Þórhallsson var málshefjandi í umræðunni og vildi að Ísland myndi biðja um lánið með formlegum hætti.
Minnit Höskuldur Þór á að Steingrímur J. Sigfússon hefði fyrir ári farið til Noregs í svipuðum tilgangi og framsóknarmenn, og óskað eftir láni frá Norðmönnum. Vel hefði verið í það tekið af systurflokkis Vinstri grænna í Noregi. Sagði Höskuldur að reynt hefði verið að gera lítið úr ummælum þingmanns norska Miðflokksins, Lundteigen. Jóhanna Sigurðardóttir og Samfylkingin hefðu gert sitt til að gera lítið úr framlagi Framsóknarflokksins til að leysa Ísland úr þeirri stöðu sem þjóðin væri komin í, föst á klafa AGS.
Vísaði Jóhanna því á bug að skemmdarverk hefðu verið framin á málatilbúnaði framsóknarmanna. Fráleitt væri að halda því fram að forsætisráðherra Íslands væri að berjast gegn hagsmunum þjóðarinnar. Það er slíkur þvættingur, sagði Jóhanna.
Höskuldur Þór lýsti yfir vonbrigðum með svör Jóhönnu og viðbrögð hennar. „Það er þingræði í landinu og við þurfum að senda formlega beiðni til Noregs um lán, og teljum að sú beiðni fái jákvæða umfjöllun þó að við getum ekki fullyrt um það fyrirfram að beiðnin verði samþykkt," sagði Höskuldur Þór.