Lifrarsamlagið við Strandveg í Vestmannaeyjum er nú alelda. Erfiðlega gengur að eiga við eldinn, að sögn lögreglunnar í Vestmannaeyjum. Allt slökkvilið bæjarins og slökkvilið Vestmannaeyjaflugvallar eru á staðnum. Tilkynnt var um eldinn um fjögurleytið í nótt.
Enginn var í Lifrarsamlaginu þegar eldurinn kom upp, að sögn lögreglu. Eldurinn virtist hafa komið upp þar sem unnið er að kaldhreinsun á lýsi, að sögn lögreglunnar í Vestmannaeyjum. Eldurinn logar í elstu húsum Lifrarsamlagsins en þar er mikið lýsi í geymslu. Ekki þykir ólíklegt að eldur hafi komist í lýsið. Þakið á elsta húsinu er nú fallið en styst er síðan að eldurinn komst í það.
Eitt hús sem stendur mjög nærri Lifrarsamlaginu var talið vera í hættu vegna eldsins. Þangað barst mikill reykur og var húsið varið með vatni. Þegar þakið féll á Lifrarsamlaginu minnkaði hættan því þá leituðu hitinn og eldurinn beint upp.
Allt Slökkvilið Vestmannaeyja er við slökkvistörf og eins slökkvilið Vestmannaeyjaflugvallar. Þá eru félagar úr Björgunarfélagi Vestmannaeyja á staðnum. Þeir hafa m.a. hamið járnplötur sem hafa fokið af þökum Lifrarsamlagsins.
Í Vestmannaeyjum er nú þurrt en dálítill suðvestan vindur sem auðveldar ekki slökkvistarfið. Reykinn frá eldsvoðanum leggur yfir hafnarsvæðið í átt að Básaskersbryggju þar sem Herjólfur leggst að.