Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, rekur í dag á vef samtakanna það sem helst stendur út af varðandi framkvæmd stöðugleikasáttmálans. M.a. segir hann að samkomulag þurfi að nást um grundvallarleiðir í skattamálum og nýja og trúverðuga áætlun um afnám gjaldeyrishaftanna.
Vilhjálmur segir, að vinna Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands vegna stöðugleikasáttmálans frá 25. júní og framlengingar kjarasamninga sé nú komin í fullan gang. Síðustu forvöð til þess að taka ákvörðun um framlengingu kjarasamninganna séu 27. október en nauðsynlegt sé að um miðja næstu viku liggi meginlínur fyrir m.a. vegna ársfundar ASÍ sem hefst þann 22. október.
Síðustu daga hefur verið unnið á grundvelli minnisblaðs sem SA og ASÍ lögðu fram um gang þeirra mála sem fjallað er um í stöðuleikasáttmálanum. Segir Vilhjálmur að þar komi fram að æði mikið sé útistandandi af því sem rætt var um að gera. Á þessari stundu sé langt í land að viðunandi niðurstaða fáist og því þurfi allir að búa sig undir þá hörmulegu stöðu að kjarasamningar verði ekki framlengdir.