Ölvunarakstur er þriðja algengasta frumorsök banaslysa í umferðinni árin 1998 – 2008, að því er fram kemur á vef Rannsóknarnefndar umferðarslysa. Þar kemur fram að í einu banaslysi sem nefndin rannsakaði hafði hópur ungmenna verið á dansleik. Var ökumaður hópsins allsgáður en hann var ekki eigandi bifreiðarinnar. Að loknum dansleik ók ökumaðurinn heim til sín fyrst. Eigandi bifreiðarinnar tók þá við lyklunum til að aka farþega heim og síðan bifreiðinni heim til sín.
Við rannsóknir nefndarinnar á banaslysum í umferðinni hefur komið í ljós að ýmsar ástæður eru fyrir því að ökumenn setjast undir stýri í óökuhæfu ástandi. Stundum er ökumaðurinn einn á ferð og enginn veit um ferðir hans. En tilvik hafa komið upp þar sem fjöldi einstaklinga veit af ölvuðum ökumanni í umferðinni og á það sérstaklega við meðal ungmenna, að því er segir á vef rannsóknarnefndarinnar.