Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði á Alþingi, að orkufyrirtæki verði ekki skattlögð um 1 krónu á kílóvattstund eins og nefnt var í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár.
Sagði Jóhanna að orkufyrirtækjum hefði verið gerð grein fyrir þessu. En ef niðurstaðan verði skattlagning um 20-25 aura á kílóvattstund verði að finna aðrar leiðir til að brúa bilið en samkvæmt fjárlagafrumvarpinu á að afla 16 milljarða króna á næsta ári með orku- og auðlindagjöldum.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði ljóst að hugmyndir ríkisstjórnarinnar um orkuskatta væru algerlega vanhugsaðar.
Jóhanna sagðist vera tilbúin að setjast niður með sjálfstæðismönnum og fara yfir þeirra hugmyndir sem lagðar hafa verið fram á Alþingi. Hún sagði, að ekki væri hægt að hlífa orkufyrirtækjunum sérstaklega; þá þyrfti að auka álögurnar á heimili og önnur fyrirtæki.
Ragnheiður Elín Árnadóttir og fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokks, sögðu nauðsynlegt að fá sérstaka umræðu um tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins í ljósi þeirra upplýsinga sem forsætisráðherra hefði veitt.