Raforkunotkun minnkar

mbl.is/Einar Falur

Raforkunotkun var rúmum 4% minni á öðrum ársfjórðungi 2009 en á sama tímabili árið 2008. Samdráttur hefur verið í raforkunotkun allt þetta ár, en mestur á 2. ársfjórðungi, að sögn raforkuhóps Orkuspárnefndar.

Hópurinn segir að sterk tengsl séu á milli almennrar raforkunotkunar og hagvaxtar. Þegar landsframleiðsla dregst saman dregur einnig úr raforkunotkun. Því er viðbúið að áhrifa efnahagssamdráttarins gæti í raforkunotkun. 

Hægja tók á vexti í raforkunotkun um mitt árið 2008 og á þessu ári hefur hún beinlínis dregist saman miðað við sömu ársfjórðunga árið á undan.  Raforkunotkun var 2% minni á 1. ársfjórðungi í ár en í fyrra og 1,3% minni á 3. ársfjórðungi nú en í fyrra.

Helstu ástæður fyrir minni raforkunotkun eru taldar vera brottflutningur fólks og minni einkaneysla, lítill afli uppsjávarfisks, samdráttur í byggingarstarfsemi og verklegum framkvæmdum, minni framleiðsla iðnfyrirtækja sem tengjast byggingariðnaði og samdráttur í þjónustugreinum.

Raforkuhópurinn gaf út endurreiknaða raforkuspá um mitt þetta ár. Þar var gert ráð fyrir að almenn notkun forgangsorku myndi minnka um nærri 1% á þessu ári. Niðurstaða fyrstu níu mánaða ársins benda til þess að samdrátturinn verði 2-3%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert