Segjast ekki tefja endurskoðun

„Það er óþolandi fyrir Ísland að þessi tvö lönd geti haldið endurskoðun efnahagsáætlunar landsins hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í gíslingu,“ er haft eftir Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, á fréttavef Reuters, og vísar hún þar til Bretlands og Hollands. 

Talsmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa til þessa ekki tjáð sig um hugsanleg tengsl milli endurskoðunar efnahagsáætlunar Íslands hjá sjóðnum og lausn Icesave-deilunnar. 

Talsmenn bæði breskra og hollenskra stjórnvalda vísa aðdróttunum um slík tengsl hins vegar á bug. 

„Við teljum okkur vera í uppbyggilegum viðræðum við Íslendinga og Breta. Markmið hollensku ríkisstjórnarinnar er að við endurheimtum fjármuni okkar. Það er ætlun okkur og það hefur ekkert með aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að gera,“  er haft eftir talsmanni hollenskra yfirvalda.

Undir þetta tekur talsmaður breskra stjórnvalda. „Bretar eru í uppbyggilegum viðræðum við Íslendinga og Holendinga og við vonumst til þess að finna fljótlega lausn á þessu ferli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka