Tap Reykjavíkurborgar nam 12,7 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Um er að ræða bæði A og B hluta sem þýðir að inni í tölunum eru öll fyrirtæki í meirihlutaeigu borgarinnar talin með, þar á meðal Orkuveita Reykjavíkur.
Segir í tilkynningu að tapið megi rekja til fjármagnsliðar sem er neikvæður um 15,9 milljarða vegna gengis íslensku krónunnar og erlendra skulda samstæðunnar.
„Þar vegur staða OR þyngst eins og þegar hefur komið fram í árshlutauppgjöri fyrirtækisins. Um leið og gengið tekur að hækka að nýju mun hagur fyrirtækisins vænkast hratt og miðað við spár um gengisþróun gæti eiginfjárhlutfall orðið ásættanlegt þegar á árinu 2011," segir í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Rekstrarniðurstaða A hluta borgarsjóðs var neikvæð um 1443 milljónir króna fyrstu sex mánuði ársins en endurskoðuð rekstraráætlun gerði ráð fyrir 1670 milljóna króna halla.