Eigandi Hólshúss við Bárustíg í Vestmannaeyjum varar við því að hróflað verði við klöpp á bakvið húsið því þar búi álfar. Vestmannaeyjabær hefur kynnt hugmynd um að leggja göngustíg þar sem klöppin stendur.
Eigandi Hólshúss hefur skrifað skipulagsyfirvöldum í Vestmannaeyjum og segir þar m.a.: „Móðir okkar fékk vitrun í draumi og vöku, sem varð til þess að ekki var hróflað við Klöppinni, enda hafði Ingvar Árnason er byggði gamla Hólshús varaði eindregið við því að hrófla við Klöppinni. Við viljum á engan hátt vera þáttakenndur í því að raska híbýlum álfa og teljum skyldu okkar að vara eindregið við því að raska á nokkurn hátt álfabyggðinni í Klöppinni við Bárustíg 9 og fríum okkur allri ábyrgð á slíku, ekki veldur sá er varar.“
Nú stendur yfir kynning umhverfis- og framkvæmdaráðs Vestmannaeyjabæjar á tillögu að breytingu á miðbænum. M.a. er lagt til að gera 23 ný bílastæði á svæðinu milli Kirkjuvegs og Bárustíg og Vestmannabrautar og Miðstrætis. Ætlunin er að leggja göngustíga að bílastæðunum, frá Kirkjuvegi og einnig frá Bárustíg til að auðvelda aðgengi að þeim. Óskað er eftir athugasemdum við við tillögurnar fyrir 21. október n.k.
Göngustígurinn frá Bárustíg á að liggja milli húsanna Bifrastar og Hólshúss. Eigandi efri hæðarinnar í Hólshúsi, Gísli Engilbertsson skrifaði umhverfis- og skipulagsráði bréf og varaði við framkvæmdum á þessum stað. Bréf hans er svohljóðandi:
„Að gefnu tilefni. - Það eru gömul munnmæli um að ábúendur Klapparinnar vilji vera í friði. Klöppin svokallaða, sem er í línu fyrirhugaðs göngustígs við Bárustíg 9 og Bifrastar, er álfabyggð. Klöppin takmarkaði stærð Bárustígs 9, en til stóð að byggja stærra. Móðir okkar fékk vitrun í draumi og vöku, sem varð til þess að ekki var hróflað við Klöppinni, enda hafði Ingvar Árnason er byggði gamla Hólshús varaði eindregið við því að hrófla við Klöppinni. Við viljum á engan hátt vera þáttakenndur í því að raska híbýlum álfa og teljum skyldu okkar að vara eindregið við því að raska á nokkurn hátt álfabyggðinni í Klöppinni við Bárustíg 9 og fríum okkur allri ábyrgð á slíku, ekki veldur sá er varar, þar af leiðir getum við ekki fallist á göngustíg milli Bárustígs 9 og Bifrastar. Guð blessi Vestmannaeyjar.“