Per Westerberg, forseti sænska þingsins, segir að Icesave-deilan sé fyrst og fremst deila Íslendinga við Breta og Hollendinga. Hann voni að hún leysist fljótt vegna þess að það skipti svo miklu máli fyrir framtíð Íslands og hann sé bjartsýnn í því efni.
Sænska sendinefndin kom til landsins á miðvikudag í opinbera heimsókn í boði Ástu R. Jóhannesdóttur, forseta Alþingis, og fer aftur til Svíþjóðar í dag.
Með sænska þingforsetanum í för eru fjórir sænskir þingmenn og starfsmenn Riksdagen, sænska þingsins. Þeir hafa hitt íslenska ráðamenn og segir Per Westerberg að sér skiljist að lausn Icesave-deilunnar sé í sjónmáli. Ljóst sé að deiluna verði að leysa til að
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn endurskoði lánasamninginn við Ísland og lánin frá Norðurlöndunum hangi á sömu spýtu. Spurður hvort honum finnist það eðlilegt segir hann að um þetta hafi verið samið. Svíþjóð hafi gengið í gegnum svipaða erfiðleika fyrir 15 árum en náð sér aftur á strik á fimm til sex árum.
Leiðtogar Evrópusambandsins ákveða væntanlega á fundi sínum í desember hvort Íslendingum verði hleypt til aðildarviðræðna eða ekki. Svíar fara nú fyrir framkvæmdastjórn ESB og segir Westerberg að þeir vilji aðstoða Íslendinga eins mikið og þeir geti í því sambandi.