Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, lagði í dag fram frumvarp á Alþingi sem miðar að því jafnvægi komist á virði eigna og greiðslugetu annars vegar og fjárskuldbindinga einstaklinga, fyrirtækja og heimila hins vegar.
Haldinn var stuttur fundur á Alþingi í dag þar sem nokkur þingskjöl voru lögð fram, þar á meðal þetta frumvarp en efni þess hefur verið áður kynnt í meginatriðum. Í frumvarpinu er m.a. gert ráð fyrir, að Íbúðalánasjóði verði heimilt að setja á fót opinbert hlutafélag sem hafi að markmiði fjármögnun og endurfjármögnun íbúðalána fyrir fjármálafyrirtæki og Íbúðalánasjóð.
Í greinargerð með frumvarpinu segir m.a. að einstaklingar, heimili og fyrirtæki séu í flestum tilvikum þolendur í því umróti sem nú er í efnahagslífinu. Hugsanlega sé hægt að segja að allir þessir aðilar hefðu átt að fara varlegar í skuldsetningu, notkun erlends lánsfjár og fjárfestingum. Líta verði hins vegar til þess að þessar ákvarðanir voru teknar við aðrar efnahagsaðstæður og aðrar væntingar en nú eru og ávallt sé auðvelt að vera vitur eftir á.
Þá sé mikilvægt að átta sig á því að stór hluti íslenskra fyrirtækja sé í miklum skuldavanda. Óhugsandi sé að beita alfarið við úrlausn þessara mála hefðbundnum þrotaaðferðum sem felist í fjárnámi, nauðasamningum, og gjaldþrotameðferð. Slíkt yrði allt of tímafrekt og mundi stífla dómskerfi landsins. Jafnframt mundi slíkt í mjög mörgum tilvikum ekki vera hagfelldasta leiðin fyrir kröfueigendur, bæði einkaaðila og fjármálafyrirtæki, þar sem víst má telja að mikil verðmæti mundu glatast við beitingu þessara úrræða.
„Þessi staða kallar því á annað verklag en hefðbundin þrotameðferð. Raunhæfasta leiðin er að heimila kröfueigendum, fjármálafyrirtækjum og almennum kröfuhöfum, m.a. að gefa eftir kröfur ef ljóst er að gjaldþol eða tryggingar eru ekki til staðar til að inna af hendi endurgreiðslur af þeim og önnur úrræði duga ekki, svo sem skuldbreyting. Hér væri að sjálfsögðu um tímabundna ráðstöfun að ræða sem miðaðist við að leysa þann vanda sem myndaðist í kjölfar efnahagshrunsins," segir m.a. í frumvarpinu.