Gæsluvarðhald framlengt

Brynjar Gauti

Gæsluvarðhald yfir þremur Litháum var framlengt í héraðsdómi Reykjaness  síðdegis í dag. Mennirnir eru úrskurðaðir í gæsluvarðhald til og með miðvikudagsins 21. október á grundvelli rannsóknarhagsmuna, sem þýðir að reynt er að koma í veg fyrir að þeir geti borið saman bækur sínar.

Mennirnir voru handteknir í tengslum við rannsókn lögreglunnar á Suðurnesjum á máli litháískrar konu sem kom til landsins sl. föstudag.

Grunur leikur á um að konan sé fórnarlamb mansals og hafi verið flutt til landsins til þess að stunda vændi hérlendis. Konan kom hingað til lands með flugi síðastliðið föstudagskvöld og var flutt rænulítil á sjúkrahús eftir að hafa látið ófriðlega í flugvélinni síðasta hluta leiðarinnar.

Hún dvaldi á sjúkrahúsi aðfararnótt laugardagsins en síðan hjá lögreglunni á Suðurnesjum að eigin ósk áður en hún var flutt í félagslegt húsnæði á vegum Reykjanesbæjar. Konan sagðist ekki eiga í nein hús að venda og engan þekkja hér á landi og gat litlar skýringar gefið á ferð sinni hingað til lands. Hún hvarf sl. mánudag en kom í leitirnar skömmu fyrir miðnætti í gær. 

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum var konan yfirheyrð í dag vegna málsins sem og fleiri aðilar.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert