Áætlað virði eigna gamla Landsbankans er 1.190 milljarðar króna en ekki 1.180 milljarðar, eins og áður var greint frá. Þetta kemur fram í yfirliti eigna og skulda gamla bankans, sem birt er á heimasíðu skilanefndar, og er leiðrétting á því yfirliti sem birt var á mánudag, samhliða fréttatilkynningu um uppgjör gamla og nýja bankans.
Samkvæmt þessu ná eignirnar upp í 90,2% af forgangskröfum, en ekki 89,5% eins og áður var greint frá. Munurinn liggur í því að í þessu verðmati er reiknað með 335 milljarða króna greiðslu frá NBI hf. (Nýja Landsbankanum), en ekki 325 eins og stóð í fyrra skjalinu. Þetta þýðir að greiðslan frá NBI verður 50 milljörðum hærri en gert var ráð fyrir í apríl, en ekki 40 milljörðum, eins og rætt hefur verið um.
Þá höfðu dálkar riðlast í töflu í fyrra skjalinu og gáfu því mjög skakka mynd af þróuninni frá febrúar til júlí á þessu ári. Rétt þróun er birt í töflunni hér að ofan. Margir hafa engu að síður velt fyrir sér hvernig standi á þessari öru hækkun eignanna og hvort sömu aðilar framkvæmi alltaf verðmatið eða nýir séu fengnir til þess.
Aðspurður svarar Páll Benediktsson, upplýsingafulltrúi skilanefndar, því til að þetta verðmat hafi í öllum tilfellum, í febrúar, apríl og júní, verið unnið af starfsmönnum skilanefndar og yfirfarið af endurskoðunarfyrirtækinu Deloitte.
Hækkunin skýrist að hans sögn af betra gengi á mörkuðum og almennt hækkandi eignaverði, en stærsta ástæðan sé lækkandi gengi krónunnar, sem hækkar verð erlendra eigna í krónum talið. Þá vekur hann athygli á því að endurheimtuhlutfall hafi heldur skánað eftir 22. apríl síðastliðinn, þegar frestur til að lýsa kröfum í búið hófst. Þá hættu vextir og gengissig krónunnar að hafa áhrif á skuldirnar, en eignahliðin hélt hins vegar áfram að vaxa með þeim hætti.