Gengið áhrifamest

Hækkunin skýrist af betra gengi á mörkuðum og almennt hækkandi …
Hækkunin skýrist af betra gengi á mörkuðum og almennt hækkandi eignaverði. hag / Haraldur Guðjónsson

Áætlað  virði eigna gamla Landsbankans er 1.190 milljarðar króna en ekki 1.180 milljarðar, eins og áður var greint frá. Þetta kemur fram í yfirliti eigna og skulda gamla bankans, sem birt er á heimasíðu skilanefndar, og er leiðrétting á því yfirliti sem birt var á mánudag, samhliða fréttatilkynningu um uppgjör gamla og nýja bankans.

Samkvæmt þessu ná eignirnar upp í 90,2% af forgangskröfum, en ekki 89,5% eins og áður var greint frá. Munurinn liggur í því að í þessu verðmati er reiknað með 335 milljarða króna greiðslu frá NBI hf. (Nýja Landsbankanum), en ekki 325 eins og stóð í fyrra skjalinu. Þetta þýðir að greiðslan frá NBI verður 50 milljörðum hærri en gert var ráð fyrir í apríl, en ekki 40 milljörðum, eins og rætt hefur verið um.

Þá höfðu dálkar riðlast í töflu í fyrra skjalinu og gáfu því mjög skakka mynd af þróuninni frá febrúar til júlí á þessu ári. Rétt þróun er birt í töflunni hér að ofan. Margir hafa engu að síður velt fyrir sér hvernig standi á þessari öru hækkun eignanna og hvort sömu aðilar framkvæmi alltaf verðmatið eða nýir séu fengnir til þess.

Innistæða fyrir hækkuninni?

Sérfræðingar sem rætt var við í gær segja hækkun eignanna mjög mikla en treysta sér ekki til að fullyrða neitt um að ekki sé innistæða fyrir henni. Til þess skorti þá allar upplýsingar, líkt og aðra sem standi utan skilanefndarinnar. Telja þeir þó til marks um mikla skammsýni endurskoðenda ef þeir láti stjórnmálamenn snúa upp á höndina á sér til að meta eignir gamla bankans of hátt. Ársreikningur verði á endanum birtur og þá komi þetta í ljós.

Aðspurður svarar Páll Benediktsson, upplýsingafulltrúi skilanefndar, því til að þetta verðmat hafi í öllum tilfellum, í febrúar, apríl og júní, verið unnið af starfsmönnum skilanefndar og yfirfarið af endurskoðunarfyrirtækinu Deloitte.

Hækkunin skýrist að hans sögn af betra gengi á mörkuðum og almennt hækkandi eignaverði, en stærsta ástæðan sé lækkandi gengi krónunnar, sem hækkar verð erlendra eigna í krónum talið. Þá vekur hann athygli á því að endurheimtuhlutfall hafi heldur skánað eftir 22. apríl síðastliðinn, þegar frestur til að lýsa kröfum í búið hófst. Þá hættu vextir og gengissig krónunnar að hafa áhrif á skuldirnar, en eignahliðin hélt hins vegar áfram að vaxa með þeim hætti.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert