Kompásmenn sýknaðir

Jóhannes Kr. Kristjánsson og Kristinn Hrafnsson.
Jóhannes Kr. Kristjánsson og Kristinn Hrafnsson. mbl.is/Árni Sæberg

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag þá Jóhannes Kristján Kristjánsson, Kristinn Hrafnsson, 365 miðla og Ara Edwald af skaðabótakröfu Benjamín Þórs Þorgrímssonar vegna þáttarins Kompás á Stöð 2, sem fjallaði m.a. um Benjamín.

Er Benjamíni gert að greiða þeim sem hann stefndi 170.000 kr. hverjum í málskostnað en hann krafðist 10 milljóna króna bóta fyrir „að vera tekinn af lífi án dóms og laga í fjölmiðlum stefndu," eins og það var orðað í stefnu.

Málið snérist um lögmæti þess, að aðstanendur Kompáss tóku á laun upp hljóð og mynd af fundi Benjamíns og Ragnars Ólafs Magnússonar við hafnarvogina í Hafnarfirði í júlí á síðasta ári og var það liður í efnisöflum um vinnubrögð  handrukkara.

Myndir frá fundinum voru sýndar í Kompási í september. Þar sást Benjamín krefja Ragnar um peningagreiðslu, að því er virðist vegna ummæla hans um Benjanín í útvarpsviðtali fyrr á árinu, en einnig vegna bruna á bifreið Benjamíns, sem hann taldi að Ragnar bæri ábyrgð á.

Héraðsdómur segir, að ekki fari á milli mála að Benjamín hafði í frammi hótanir við Ragnar, bæði um líkamlegt ofbeldi og aðrar ótilgreindar ófarir, ef Ragnar greiddi ekki skuld sína. Lauk samtalinu með því að Benjamín gekk í skrokk á Ragnari og hætti ekki fyrr en þeir Kristinn og Jóhannes Kr. óku á vettvang og þeyttu bílflautur. 

Héraðsdómur segir í niðurstöðu sinni, að við upptökuna hafi Benjamín veriðstaðinn að alvarlegu lögbroti. Við slíkar aðstæður geti dómurinn ekki fallist á að sú vernd, sem 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífsins tryggi honum skjól fyrir umfjöllun fjölmiðla. 

„Mestu skiptir hins vegar að upptakan, og síðar birting hennar, var raunsönn lýsing á samfélagsmeini, þar sem leikreglur samfélagsins eru þverbrotnar og uppgjör mála knúin fram með líkamlegu ofbeldi eða hótunum um slíkt eða aðrar ófarir. Stefndu höfðu áður fjallað um handrukkun, en þá vegna innheimtu fíkniefnaskuldar, og var umfjöllun þeirra liður í almennri umræðu um málefnið og þá ógn sem einstaklingum og öllu samfélaginu stafar af vinnubrögðum þeirra sem slíkt stunda. Þótt aðalefni myndskeiðsins og umfjöllunar stefndu hafi verið hinar ólögmætu starfsaðferðir stefnanda, verður að telja að birting myndar af honum hafi, eins og hér háttaði til, ekki falið í sér brot gegn rétti stefnanda til eigin myndar. Að áliti dómsins hafði almenningur augljósa hagsmuni af því að þekkja stefnanda og starfsaðferðir hans, og mun meiri en stefnandi af því að upptakan yrði ekki birt. Jafnframt er það álit dómsins að umfjöllun stefndu um stefnanda hafi í umrætt sinn bæði verið málefnaleg og byggð á staðreyndum," segir m.a. í niðurstöðu héraðsdóms.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert