Rúmlega þrjátíu manns efndu til mótmæla fyrir utan skrifstofur Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) á Egilsstöðum skömmu eftir hádegi í dag. Hópurinn var með mótmælaspjöld, barði saman pottokum, blés í lúðra, fluttar voru ræður og hrópuð andmæli gegn yfirstjórn HSA. Frá þessu er greint í Austurglugganum á vefnum.
Þar kemur fram að tilefnið hafi verið að mótmæla meðferð HSA á Hannesi Sigmarssyni, yfirlækni Heilsugæslu Fjarðabyggðar, en honum var vikið tímabundið frá störfum fyrir um átta mánuðum og kærður til lögreglu vegna meints misferlis með fé HSA.
„Við erum fulltrúar fleiri hundruð manna, við sem mætum hér á svæðið. Við erum búin að afhenda ráðherra tvisvar sinnum undirskriftir rúmlega 800 hundruð íbúa í hvort skipti. 800 íbúa í Fjarðabyggð sem hafa skorað á heilbrigðisráðherra að stöðva þessa óáran sem hefur gengið yfir okkar,“ sagði Björn Grétar Sveinsson m.a. í ávarpi sínu til hópsins sem var að mótmæla.
„Fimm sinnum erum við búin að fá niðurstöðu frá hinum ýmsu embættum um að ekki sé ástæða til að hafast frekar að eða til að höfða mál á hendur okkar ágæta yfirlækni. Við þurftum ekki fimm niðurstöður. Við vissum að þetta fólk sem um er að ræða er ekki þjófar þó að þau hafi verið borin sökum sem þjófar og fleira. Það er þannig að við hljótum að standa frammi fyrir því að sú niðurstaða geti komið í þetta mál að Fjarðabyggð taki einfaldlega sína heilsugæslu í eigin hendur. Við getum ekki notast við svona stjórnun eins og hér er.“
Starfsfólk HSA var hvatt til að koma út og hlýða á það sem hópurinn hefði fram að færa, en enginn fulltrúi HSA kom að máli við hópinn. Boðað hefur verið til frekari aðgerða.