Hvorki Borgarahreyfingin né afsprengi hennar, Hreyfingin, fengju kjörna fulltrúa á Alþingi nú, samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar Fréttablaðsins sem gerð var í gærkvöldi. Ríkisstjórnarflokkarnir fengju 50% atkvæða og 32 þingmenn samkvæmt könnuninni yrði kosið nú.
Sjálfstæðisflokkurinn mældist með 34,8% fylgi í könnun Fréttablaðsins. Yrðu sú niðurstaða kosninga myndi flokkurinn bæta við sig sex þingmönnum. Framsóknarflokkurinn mældist með 14,1% fylgi í könnuninni en flokkurinn fékk 14,8% fylgi í kosningunum.
Borgarahreyfingin mældist með 0,8% stuðning og Hreyfingin með 0,4%. Borgarahreyfingin fékk 7,2% í síðustu kosningum.
Samfylkingin fékk 30,8% fylgi í könnun Fréttablaðsins sem er einu prósentustigi yfir kjörfylgi. VG mældist með 19,2% en flokkurinn fékk 21,7% í kosningunum. Ríkisstjórnin fengi 32 þingmenn samkvæmt könnuninni og 50% atkvæða.