Tilkynningum um vændi hefur fjölgað

mbl.is/Árni Torfason

„Það er greinileg aukning í tilkynningum [undanfarna mánuði] til lögreglu um vændisstarfsemi. Við bregðumst við því með því að rannsaka þessi mál,“ segir Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hann gefur hins vegar ekki upp í hverju aðferðir lögreglu séu fólgnar.

Greiningardeild ríkislögreglustjóra segir að sterkar vísbendingar séu um að skipulögð glæpastarfsemi sé að færast í vöxt hér á landi. Þá segist deildin búa yfir staðfestum upplýsingum þess efnis að götuvændi sé stundað í Reykjavík. Það er hins vegar tekið fram að götuvændi sé takmarkað, enn sem komið er.

Ásgeir Karlsson, yfirmaður greiningardeildar ríkislögreglustjóra, segir að vændi og skipulögð glæpastarfsemi sé fljót að vinda upp á sig fái starfsemin að vera óáreitt. „Það eru sterkar vísbendingar um að skipulögð glæpastarfsemi færist í vöxt hérna. Og vændi er ekkert undanskilið þeirri skipulögðu glæpastarfsemi,“ segir Ásgeir.

Hann tekur fram að mál sem tengist vændi hafi sjaldan skotið upp kollinum hérlendis en menn óttist að slík starfsemi tengist erlendum glæpahópum. Þeim fylgi einnig önnur ólögleg starfsemi á borð við fíkniefnasölu og mansal. Aðspurður um vændisstarfsemi segir hann allar líkur á því að um samvinnu sé að ræða á milli íslenskra og erlendra aðila.

Friðrik Smári tekur undir það að skipulögð glæpastarfsemi hafi færst í vöxt á höfuðborgarsvæðinu. „Við leggjum sífellt meiri áherslu á að rannsaka slíkt. Það voru skipulagsbreytingar gerðar í vor á embættinu. Nú er miðlæg rannsóknardeild hjá okkur sem rannsakar alvarleg mál, þar með skipulagða glæpastarfsemi,“ segir Friðrik Smári og bætir við að lögreglan bregðist við eins og hægt sé.

Friðrik Smári bendir á að vændi sé löglegt á Íslandi en það sé hins vegar bannað að auglýsa slíka þjónustu eða kaupa hana. Því beini lögreglan sjónum sínum sérstaklega að þeim sem kaupa vændi og þá sem hafa milligöngu um slíkt.

Hann bendir á að þróunin hér á landi sé sú sama og í nágrannaríkjunum, þar sem þetta er vandamál. Íslendingar verði einnig að kljást við vandamál eins og skipulagða glæpastarfsemi og vændi. Þetta berist hins vegar seinna til Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert