„Við viljum fá prestinn okkar aftur," sagði Ingibjörg Sigtryggsdóttir á borgarfundi sem séra Gunnar Björnsson efndi til á Selfossi í kvöld. Klappað var fyrir þessum orðum en á fundinum kom fram eindreginn stuðningur við Gunnar.
Á fundinum var samþykkt ályktun þar sem skorað var á biskup Íslands að endurskoða ákvörðun sína að færa Gunnar til í starfi. Ákvörðun hafi verið ómakleg og líklega ólögleg. Jafnframt var skorað á sóknarnefndin að boða til fundar í sókninni.
Í ályktuninni segir að fundurinn harmi "þá hörku sem biskupinn yfir Íslandi hefur sýnt með úrskurði sínum 15. október, í máli sr. Gunnars með því að hann skuli fluttur til í starfi gegn vilja hans, meinuð endurkoma að þjónustu við söfnuðinn á Selfossi, að hann sé þannig hrakinn úr starfi því sem hann þráir að gegna á ný.
Fundurinn telur, að úrskurður biskups sé ómaklegur, að líkindum ólögmætur og gangi á svig við niðurstöðu sem fengin er nýlega í héraðsdómi, hæstarétti og hjá úrskurðarnefnd Þjóðkirkjunnar, sveigi að mannorði Gunnars enn frekar en orðið er og sneiði að mannréttindum hans.
Með veraldlegum og geistlegum úrskurði, héraðsdómi og í Hæstarétti, var sr. Gunnar sýknaður af ákæru um kynferðislegt áreiti við tvö ung sóknarbörn sín. Auk þess hafði biskupinn sjálfur að þeim niðurstöðum fengnum, úrskurðað, að Gunnar skyldi snúa aftur til starfs, sem honum hafði verið veitt tímabundin lausn frá. Nú hefur biskupinn snúið þessum úrskurði án þess að fram hafi komið eða skýrðar nýjar málsástæður annað en orðrómur um djúpstæðan ágreining í sókninni.
Fundurinn mótmælir staðhæfingum að óathuguðu máli um djúpstæðan ágreining innan safnaðarins um endurkomu Gunnars. Fundurinn vekur athygli á því, að fjölmörg sóknarbörn hans vilja hafa hann áfram sem sálusorgara og til að sinna öðrum prestverkum og telja mikinn missi fyrir safnaðarstarfið, ef Gunnar yrði að víkja. Það er brot gegn þessum sóknarbörnum, að hrekja Gunnar frá þessari þjónustu við þau og brot gegn mannréttindum Gunnars og mannúðarleysi einnig eftir það sem hann hefur gengið í gegn um í þessu máli. Ætla má, að andmæli sem fram hafa komið gegn því að Gunnar snúi aftur til starfa í Selfosskirkju séu borin uppi af fámennum hópi, en hinir séu margfalt fleiri, sem óska þess að hann verði áfram.
Skorað er á biskupinn að endurmeta þessa afstöðu. Fundurinn skorar á rófast sr. Eirík Jóhannsson að kalla saman sóknarnefnd til fundar við söfnuð Selfossprestakalls um þetta mál."
Séra Gunnar sagði á fundinum að biskup Íslands hefði sent sér bréf eftir að Hæstiréttur kvað upp sýknudóm í máli hans. Hann hefði síðar í samtali við sig lofað sér því að hann ætti að taka við embættinu 1. júní. Nokkuð hörð gagnrýni hefur komið fram á biskup Íslands á fundinum.