„Að okkar mati fara umfangsmiklar vínveitingar ekki saman við uppeldisstarf og uppeldismarkmið íþróttahreyfingarinnar,“ segir Stefán Jóhann Stefánsson, fulltrúi Samfylkingar í íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkurborgar, en ráðið samþykkti á fundi sínum fyrr í dag bókun sem felur í sér að ráðið vill sporna við áfengisneyslu á vegum íþróttafélaganna í borginni.
Aðspurður um aðdraganda málsins segir Stefán að tvö íþróttafélög í borginni, Fram og Fylkir, hafi sótt um vínveitingaleyfi og í þess vegna hafi verið óskað eftir umsögn ráðsins.
„Eftir umræður í málinu var ákveðið að skipa starfshóp sem á að fjalla um setningu viðmiðunarreglna um áfengisveitingar í íþróttamannvirkjum,“ segir Stefán. Hópurinn verður skipaður tveimur fulltrúum íþrótta- og tómstundaráðs (ÍTR) og tveimur fulltrúum frá Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) og er honum ætlað að skila tillögu til stjórnar ÍBR og ÍTR fyrir 1. desember nk.