„Það var góð mæting þrátt fyrir rok og rigningu,“ segir Jóhanna K. Eyjólfsdóttir framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty International. Samtökin slepptu um 200 gulum blöðrum með handjárnum á Ingólfstorgi í dag til þess að marka upphafið á herferð sem nefnist Krefjumst virðingar og hefur það að markmiði að berjast gegn fátækt.
„Þó barátta Amensty International fyrir lausn samviskufanga, gegn pyndingum og gegn dauðarefsingum og manshvörfum hafi verið mest áberandi hin síðari ár þá höfum við alltaf gengið út frá því að öll mannréttindi séu innbyrðis háð og ódeilanleg,“ segir Jóhanna.
Að sögn Jóhönnu hyggjast samtökin í herferð sinni að beina sjónum sínum í auknu mæli að tengslum mannréttindabrota við fátækt. „Og hvernig mannréttindabrot bæði ýta undir og viðhalda fátækt.“
Spurð hvað hinn almenni borgari geti gert til þess að leggja herferðina lið segir Jóhanna hægt að gera það á mjög margan hátt. „Í fyrsta lagi er hægt að gerast félagi í Amnesty og fylgjast þá með starfinu og taka þátt í starfinu í gegnum félagsaðild. Svo er líka hægt að fylgjast með á vefnum okkar og Facebook síðunni okkar og á alþjóðlegu heimasíðu samtakanna reglulegar upplýsingar um aðgerðir sem fólk getur tekið þátt í. Síðan skiptir miklu máli að fólk lesi og fylgist með því efni sem við komum til með að gefa út, af því að við viljum ekki síst breyta afstöðunni til fátæktar og umræðuna um hana. Við viljum að fátækt og baráttan gegn henni byggist á virðingu fyrir mannréttindum.“