Sérstakur saksóknari rannsakar nú sölu Baldurs Guðlaugssonar á hlutabréfum í Landsbankanum á meðan hann var ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu. Þetta kom fram í kvöldfréttatíma Ríkissjónvarpsins.
Baldur seldi hlutabréf sín í Landsbankanum síðasta haust, stuttu eftir fund sem Björgvin G. Sigurðsson, þáverandi viðskiptaráðherra, átti með Alistair Darling, fjármálaráherra Bretlands, vegna vanda Landsbankans og stöðu Icesave. Fundurinn var í byrjun september í fyrra og sat Baldur hans ásamt fleiri embættismönnum.
Samkvæmt því sem fram kom í sjónvarpsfréttum Ríkissjónvarpsins rannsakar Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, nú hvort Baldur hafi, eftir fundinn með Darling, verið orðinn innherji og þar með í krafti starfs síns búið yfir upplýsingum sem almennir hluthafar gátu ekki nálgast. Einnig hvort hann hafi hagnýtt sér þær með ólögmætum hætti, með því að selja bréf sín í Landsbankanum, vitandi um bága stöðu bankans.
Baldur hefur ítrekað sagt í viðtölum að hann hafi selt hlutabréfin eftir að hafa lesið um bága stöðu Landsbankans í fjölmiðlum.