Icesave-fyrirvörum breytt

Niðurstaða er fengin í Icesave-viðræðum íslenskra, breskra og hollenskra stjórnvalda og af því tilefni hefur verið boðað til fundar í fjárlaganefnd Alþingis á morgun kl. 14.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafa íslensk stjórnvöld fallist á að fyrirvörum þeim sem Alþingi samþykkti í sumar verði breytt og að Íslendingar taki á sig auknar byrðar frá því sem þá var gert ráð fyrir. Forystumenn ríkisstjórnarflokkanna munu telja sig hafa meirihluta á þingi fyrir málinu.

Ekki hætt að greiða árið 2024

Íslensk stjórnvöld hafa fallist á að ekki verði hætt að greiða af Icesave-skuldabréfunum árið 2024 eins og fyrirvararnir gerðu ráð fyrir, heldur verði upphæðin greidd að fullu. Greiðslur eftir 2024 munu miðast við 6% af hagvexti líkt og fram til 2024 og vextir verða óbreyttir.

Dómsúrskurður hnekkir ekki greiðsluskyldu Íslands

Bretar og Hollendingar munu hafa fallist á að hægt verði að fara með málið fyrir dóm til að láta reyna á greiðsluskyldu Íslands, líkt og fyrirvararnir kveða á um. Á hinn bóginn hefur niðurstaða dómsins, þótt hann yrði Íslendingum í hag, ekki sjálfkrafa þau áhrif að greiðslur falli niður. Verði dómurinn Íslandi í vil hefur hann aðeins þau áhrif að  sest verði aftur að samningaborði.

Ragnars Hall ákvæðið inni, nema ESA úrskurði gegn því

Ákvæðið sem kennt er við Ragnar Hall og kveður á um forgangsröð krafna er áfram inni líkt og fyrirvararnir gerðu ráð fyrir. Komist Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hins vegar að þeirri niðurstöðu að það stangist á við evrópskan rétt þá fellur það úr gildi og breytir þá engu þótt niðurstaða Hæstaréttar Íslands yrði á þá leið að ákvæðið héldi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert