Meirihluti þeirra sem tóku þátt skoðanakönnun Fréttablaðsins vill að ríkisstjórnin segi upp samningnum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Af þeim sem tóku afstöðu vildu 58% segja upp samningnum en 42% sögðust andvíg uppsögn hans.
Að sögn blaðsins vill meirihluti stuðningsmanna allra flokka utan Samfylkingarinnar segja upp samningnum. Rúmlega 65% sjálfstæðismanna vildu uppsögn, tæp 69% framsóknarmanna og 59% stuðningsmanna Vinstri grænna. Um 35% samfylkingarfólks vill segja samningnum upp.
Hringt var í 800 manns fimmtudaginn 15. október. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir búsetu. Spurt var: Á ríkisstjórnin að segja upp samningnum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn? Alls tóku 78% afstöðu til spurningarinnar.