Indriði H. Þorláksson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, sagði í fréttum Bylgjunnar að niðurstaðan, sem fengin er í Icesave-málinu, feli ekki í sér auknar byrðar á herðar Íslendinga. Nú er að hefjast ríkisstjórnarfundur um málið í Stjórnarráðinu.
Haft var m.a. eftir Indriða að alltaf hafi legið fyrir, að ekki yrði hætt að borga af Icesave-skuldbindingunum árið 2024, standi þá eitthvað útaf, heldur hefði verið gert ráð fyrir að teknar yrðu upp viðræður.
Fram kom í frétt mbl.is í gærkvöldi, að íslensk stjórnvöld hefðu fallist á að ekki verði hætt að greiða af Icesave-skuldabréfunum árið 2024 eins og fyrirvarar Alþingis gerðu ráð fyrir, heldur verði upphæðin greidd að fullu. Greiðslur eftir 2024 muni miðast við 6% af hagvexti líkt og fram til 2024 og vextir verða óbreyttir.
Ráðherrar voru fámálir þegar þeir komu á ríkisstjórnarfundinn í dag. Gert er ráð fyrir því að niðurstaðan í samningunum við Breta og Hollendinga verði kynnt fyrir þingflokkum eftir hádegið og fyrir fjárlaganefnd Alþingis klukkan 14. Þá er gert ráð fyrir blaðamannafundi klukkan 16.