Eftir Bergþóru Njálu Guðmundsdóttur
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir liggja fyrir að ekki verði þörf á að bíða eftir afgreiðslu Alþingis á nýju frumvarpi ríkisstjórnarinnar vegna Icesave-málsins, áður en endurskoðun Alþjóða gjaldeyrissjóðsins fari fram. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra hefur ekki áhyggjur af afstöðu tiltekinna þingmanna Vinstri grænna í málinu.
Steingrímur sagðist bjartsýnn á farsælar lyktir málsins í sínum þingflokki. „Það var fallist á framlagningu þess sem stjórnarfrumvarps án athugasemda í þingflokknum," sagði hann og að hann hefði ekki áhyggjur af afstöðu tiltekinna þingmanna.
Hvað varðar afstöðu stjórnarandstöðunnar sagði Steingrímur að fundur fjárlaganefndar hafi verið góður og gagnlegur. „Hvort sem menn samþykkja málið eða ekki, þá held ég að því verði ekki á móti mælt að það hefur náðst mikilsverður árangur í því að fá gagnaðilana til að fallast á umbúnaðinn af hálfu Alþingis frá síðastliðnu sumri. Það hlýtur að vera jákvætt gagnvart þeim sem að því stóðu og auka líkurnar á því að menn séu sáttari við málið en ella."
Hann sagði í höndum þingsins hversu hraða afgreiðslu málið fær í meðförum þess. „En auðvitað er málið svo þaulrætt og rannsakað að það á auðvitað að flýta fyrir. Þetta eru tiltölulega einfaldar breytingar sem nú eru gerðar og öll gögn málsins munu liggja fyrir." Inntur eftir því hvort hann ætti von á annarri eins Icesave-umræðu núna og var í sumar sagði hann Alþingi Íslendinga hafa ýmislegt að sýsla þessa dagana. „Þannig að ég held að það séu nú ekki góðar aðstæður til þess að láta þetta mál eitt og sér taka allan tímann og ryðja öllu öðru til hliðar. Það þarf nú helst að afgreiða hér fjárlög og gera ýmsar breytingar á skattalögum og annað í þeim dúr. Árið 2010 nálgast óðfluga og allt þetta þurfum við að hafa í huga þegar menn meta stöðuna."