Engin tímamörk verða á ríkisábyrgð vegna Icesave-skuldbindinga Íslands samkvæmt samkomulagi, sem gert hefur verið við Breta og Hollendinga. Samkvæmt lögum, sem Alþingi samþykkti í haust gilti ríkisábyrgð vegna skuldbindinganna til 5. júní 2024.
Samkvæmt nýja samkomulaginu er áfram gert ráð fyrir að lánin greiðist upp fyrir 2024. Ísland hafi rétt á að framlengja ef þörf krefur en lán framlengist ennfremur sjálfkrafa ef eitthvað stendur eftir árið 2024 og er ekki gert ráð fyrir sérstökum viðræðum um það. Lánin renna þá út 5. júní 2030 og síðan er heimilt að framlengja þau um 5 ár í senn eftir það uns upphæðin er að fullu greidd.
Staðfest er að greiðslur af lánunum miðist við samanlagt 6% af uppsöfnuðum hagvexti. Jafnframt er ákveðið að þak innihaldi bæði höfuðstólsgreiðslur og vexti en þó þannig að vextir verði alltaf greiddir að lágmarki. Ennfremur er staðfest að þakið gildir áfram eftir 2024.
Um er að ræða lán að fjárhæð allt að 2,35 milljarða punda, jafnvirði 475,5 milljarða króna, vegna Icesave-reikninganna í Bretlandi og 1.329.242.850 evra, jafnvirði 246 milljarða króna, vegna Icesave-reikninganna í Hollandi. Ársfjórðungslegar greiðslur hefjast í september 2016 og lýkur að óbreyttu í júní 2024. Gert er ráð fyrir, að þegar Tryggingarsjóður innistæðueigenda fái úthlutað úr búi Landsbankans vegna innstæðna verði sjóðurinn að nota þær greiðslur til að greiða niður lán Breta og Hollendinga.