Erilsamt var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu seinni hluta nætur. Að sögn varðstjóra var fram til kl. 04.30 fyrst og fremst um hávaðaútköll í heimahús víðs vegar um borgina að ræða. Hálf fimm var hins vegar eins og æði hlypi á fólk í miðborginni og slegist var bæði inni á skemmtistöðum og úti.
Samkvæmt upplýsingum bæði frá lögreglunni sem og sjúkraflutningsmönnum var nokkur fjöldi fluttur á slysavarðdeild Landspítalans til aðhlynningar. Flestir voru með skrámur og skurði eftir kjaftshögg en eitthvað var líka um nefbrot. Sjö gistu fangaklefa í nótt, mestmegnis vegna ölvunar.
Lögreglunni barst í nótt tilkynning um innbrot í leikskóla í Árbæ. Þegar hún kom á staðinn var innbrotsþjófurinn, sem var ungur karlmaður, enn á staðnum og var hann handtekinn og gisti fangaklefa.