Lagalegir fyrirvarar halda flestir

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, kemur til ríkisstjórnarfundar í dag.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, kemur til ríkisstjórnarfundar í dag. mbl.is/Kristinn


Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagðist eftir fund ríkisstjórnarinnar um niðurstöðuna, sem fengist hefur í Icesave-málinu, ekki sjá annað en að flestir þeir lagalegu fyrirvarar, sem Alþingi setti vegna ríkisábyrgðarinnar á Icesave-skuldbindingar íslenska ríkisins, hefðu haldið.

Samkvæmt dagskrá ríkisstjórnarfundar fór Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, þar fram á  heimild til undirritunar viðaukasamninga við breska og hollenska ríkið annars vegar og Tryggingasjóð innstæðueigenda og fjárfesta og íslenska ríkisins hins vegar. Einnig kynnti hann frumvarp til laga um breytingu á lögum um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands, þ.e. þeirra sem áttu inneignir á Icesave-reikningum.

Ráðherrar vildu lítið segja eftir fundinn. Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði þó, að hann væri mjög ánægður með þá niðurstöðu sem fengist hefði í Icesave-málinu en tjáði sig að öðru leyti ekki við fréttamenn.

Nú mun Steingrímur kynna niðurstöðuna fyrir þingflokkum á Alþingi og einnig er gert ráð fyrir að fjárlaganefnd Alþingis komi saman til að fjalla um málið. 

Niðurstaða fékkst í gærkvöldi í viðræðum Íslendinga við Breta og Hollendinga um Icesave-málið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka