Lengra varð ekki komist

Helgi Áss Grétarsson, lögmaður, Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir, …
Helgi Áss Grétarsson, lögmaður, Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir, kynna Icesave-samninginn. mbl.is/Kristinn

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði á blaðamannafundi, þar sem nýtt samkomulag um Icesave-skuldbindingar Íslands var kynnt, að það væri mat hennar og Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, að niðurstaðan sem nú liggur fyrir sé viðunandi og að lengra verði ekki komist.

Sagði Jóhanna, að hagsmunir íslensku þjóðarinnar væru, að ljúka málinu frekar en skilja það eftir í uppnámi. Hún sagði, að margt myndi leysast samhliða þessu. Þannig gætu Íslendingar haldið áfram efnahagsáætlun sinni, lækkað stýrivexti og dregið úr gjaldeyrishöftum.

Þá fylgdi það þessari niðurstöðu, að Íslendingar muni geta fengið endurskoðun fljótlega á samningunum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, jafnvel í þessum mánuði. Þá losnuðu 123 milljarða króna lán frá Norðurlöndunum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem notað yrði til að styrkja gjaldeyrisvaraforða landsins.

Gert er ráð fyrir því að samkomulagið verði undirritað á morgun og þá verði einnig lagt fram frumvarp á Alþingi um ríkisábyrgð. Einnig verður birt sameiginleg yfirlýsing fjármálaráðherra ríkjanna þriggja.

Steingrímur sagði, að viðræðurnar við Breta og Hollendinga hefðu verið harðsóttar og það hefði ekki verið fyrr en á síðustu dögum sem fullnægjandi árangur náðist varðandi frágang tiltekinna þátta. 

Sagði Steingrímur, að niðurstaðan fæli í sér að gerður verði viðaukasamningur við Icesave-samninginn frá í sumar. Inn í þann samning gengju að uppistöðu til allir fyrirvarar og skilmálar Alþingis úr lögunum, sem sett voru 23. ágúst um ríkisábyrgð vegna skuldbindinganna. 

Þá féllust Bretar og Hollendingar á fyrirvara sem lúti að fullveldi og eignum landsins. Einnig verði þeir efnahagslegu fyrirvarar, sem Alþingi gerði, felldir inn í samninginn.

Fram kom í máli Steingríms, að í yfirlýsingu fjármálaráðherra landanna verði tekið fram að Bretland og Holland hafi m.a. annars fallist á þá efnahagslegu skilmála sem settir voru með lögunum um ríkisábyrgðina í sumar og að Ísland hafi endurnýjað skuldbindingar sínar til að ábyrgjast skuldbindingar Tryggingarsjóðs innistæðueigenda án þess að í því felist viðurkenning á að lagaleg skuldbinding hafi verið til staðar.

Þá muni fjármálaráðherra Íslands á grundvelli laganna fylgjast með framvindu mála og efna til viðræðna eftir því sem þörf krefur. Þá muni aðilar ennfremur staðfesta vilja til samstarfs þar á meðal til viðræðna að ósk hvaða samingsaðila sem er, til að ræða aðstæður sem sem upp kunna að koma og hvernig við þeim yrði brugðist.

Í yfirlýsingunni verður einnig fjallað um mikilvægi afgreiðslu endurskoðunar á samstarfsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og lýst stuðningi við það að hún fari fram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert