Engin tímatakmörk eru á ríkisábyrgð vegna Icesave-innistæðna og ekki er kveðið á um rétt Íslands til að fá úrskurð dómstóla um greiðsluskyldu sína í nýjum samþykktar- og viðaukasamningi Íslands, Breta og Hollendinga sem fjármálaráðherra undirritar í dag.
Hins vegar er gert ráð fyrir að búið verði að greiða upp Icesave-skuldbindingarnar að fullu árið 2024. Þá er hnykkt á þeirri skoðun íslenskra stjórnvalda að þau viðurkenni ekki greiðsluskyldu sína, bæði í frumvarpi sem ríkisstjórnin leggur fram í dag og í sameiginlegri yfirlýsingu landanna þriggja sem kynnt verður í kjölfarið.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði á blaðamannafundi í gær að hún teldi niðurstöðuna ásættanlega og að ekki hefði verið lengra komist með málið. „Það er alveg ljóst í okkar huga að hagsmunir íslensku þjóðarinnar eru meiri að klára þetta mál, eins langt eins og við gátum komist með það, heldur en að skilja málið eftir í uppnámi,“ sagði hún.
Jóhanna og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sögðust bjartsýn á framgang frumvarpsins í þinginu enda hefðu þingflokkar beggja ríkisstjórnarflokka samþykkt það fyrir sitt leyti.
Sagði Steingrímur að með samningnum féllust Bretar og Hollendingar „að uppistöðu til“ á alla fyrirvara Alþingis frá í ágúst „sem lúta að fullveldi landsins, eignum, ríkis og seðlabanka erlendis, að niðurstaðan ætti ekki að hafa áhrif á óskorað forræði Íslendinga yfir sínum auðlindum og annað í þeim dúr. Sömuleiðis er tekinn inn í viðaukasamninginn fyrirvari er varðar forgangsröð við útgreiðslu úr búinu.“